Prjónaðir sokkar

Ég hef ekki verið mjög dugleg við að prjóna sokka. Ég á tvær frábærar bækur með sokka uppskriftum, en er stundum svo illa haldin af “second sock syndrome”, sem lýsir sér sem agalegt sinnuleysi yfir því að prjóna hinn sokkinn, að ég hef ekki lagt í það að byrja á pari.

Mér líður eins með vettlinga.

Svo hefur eiginmaður minn líka verið einum of duglegur að minna mig á það að ég lofaði honum sokkum árið sautjánhundruð og súrkál og hafði enn ekki staðið við það. Þetta var eiginlega orðið eitt af þeim verkefnum sem er svo auðvelt að koma í verk en manni virðist hinsvegar algjörlega fyrirmunað að geta byrjað á.

Neyðin kennir hinsvegar naktri konu að spinna, hér fást ekki þykkir sokkar að sumri og elsti sonur minn þurfti sokka fyrir veiðiferð á Íslandi nú í sumar. Nú var að duga eða drepast.

Auðvitað reyni ég að duga og prjónaði par fyrir drenginn. Kom mér á óvart hversu fljót ég var að þessu. Notaði marglitað sokkagarn frá Bumbo, hafði það tvöfalt á prjóna 3.5 og sokkarnir einhvernveginn bara runnu af prjónunum.