Ég sagði síðan frá því fyrir stuttu að ég ætlaði ekki að byrja á neinu fyrr en ég væri búin að ljúka við lopapeysu sem ég byrjaði á án þess að úthugsa munstrið fyrst. Ég setti mér líka þá reglu að ég mætti ekki byrja á neinu fyrr en ég væri búin með hana. Kannski og kannski ekki heklaði ég pínulítið í ömmu teppi sem ég er að gera, bara rétt á meðan að ég reyndi að upphugsa áframhald munstursins á lopapeysunni.

Í miklum mótþróa kláraði ég þó peysuna. Ég er mjög hrifin af litunum, þetta er fölgræn samkemba og dökkmórauður í Plötulopanum. Ég er líka hrifin af munstrinu þó það hafi verið smá tilviljanakennt hvernig það kom út. Hálsmálið vildi ég, svona eftir á að hyggja, hafa aðeins þrengra. Það er helst til vítt.

arna-og-lopapeysan

Peysuna setti ég á svalagólfið til þess að mynda hana, ætlaði sú stutta að lofa mér að gera það í friði? Nei, sennilega ekki.

STAÐREYNDIR

Uppskrift: Mín eigin.

Garn: Tvöfaldur Plötulopi, fölgræn samkemba og dökkmórauður.

Prjónar: 4. Frekar lítil stærð á prjónum fyrir tvöfaldan Plötulopa, en kom virkilega vel út.

Garnmagn: U.þ.b 4 hespur. Þetta var dregið uppúr stassinu, svo þetta eru ekki áreiðanlegar tölur.

Ný tækni: Búa til eigið munstur.

Athugasemdir: Hefði átt að minnka hálsmálið meira. Ég prjónaði síðan stroffið á prjóna 3, alveg heilu númeri minni en þeir fyrir sjálfa peysuna. Mér finnst eitthvað fallegra að peysan komi í beinu framhaldi af stroffinu, svona aflíðandi.