Ég velti æði mörgu fyrir mér. Þar á meðal er markmiðasetning, sem ég hef haft á heilanum frá því í janúar, og velgengni.

MARKMIÐ

Ég hafði aldrei sett mér markmið, svona meðvitað. Ég veit ekki afhverju. Og pissaðu nú ekki í buxurnar yfir því að fullorðin manneskja hafi aldrei sett sér markmið. Ég hef ekki bara verið að bora í nefið og stara útí tómið. Þvert á móti. En hafði bara einhvernveginn ekki heyrt um markmiðasetningu .. eða kannski hafði ég heyrt það alveg en bara ekki tekið eftir.

Ég gerði langan markmiðalista fyrir sjálfa mig í janúar og ég hef líka gert langan markmiðalista fyrir búðina mína og hvernig ég ætla að láta það dæmi ganga upp.

Nokkur af einka markmiðunum fyrir 2014:

  • Góða eldabuskan
    • þróa með mér hæfileika í að elda af ástríðu
    • versla inn af hagsýni
    • skipulag
    • hollusta

Ok. Þetta blogg ber ekkert annað með sér en að ég er Ó SVO MIKIÐ að reyna! Ég fæ prik fyrir það. Mér finnst nefnilega óendanlega leiðinlegt að elda… eiginlega líka geðbilað leiðinlegt að skipuleggja hvað á að vera og versla mat.

  • Glaða og hlýja konan
    • læra að vera hamingjusöm og gefandi
    • vera létt í líkama og sinni
    • vera snyrt og ekki larfur

Glaða og hlýja konan.. hehe, þetta er skrifað í janúar. Ég held ég hafi verið nokkuð gefandi það sem af er ári og það er langt síðan ég hef verið eins hamingjusöm og ég er yfirhöfuð núna. Smá skuggi í augnablikinu en yfir höfuð er ég glöð og líka nokkuð létt í sinni.

Vel snyrt og ekki larfur. Getur ekki verið bara töff að vera ómálaður larfur?

  • Fallega heimilið
    • Rólegt og afstressandi
    • Meiri músík
    • Öruggt
    • Hreint
    • Allir hlutir á sínum stað

Árið fór sannarlega ekki vel af stað, þá eftir að við komum hingað sko og ég er ennþá að jafna mig á sjokkinu sem ég fékk þegar við tókum við fyrri íbúðinni hér í húsi. Mikil afstressun hefur átt sér stað og við erum sannarlega að berjast fyrir því að hér sé öruggt og gott að vera. Hreint.. hreinleiki er afstæður er mitt svar og allt á sínum stað?.. ef það kemur upp að skærin eru þrisvar í röð á sínum stað, þá mun ég halda því fram að markmiðinu um að allir hlutir hafi og séu á sínum stað, sé náð.

  • Walk the Talk

Af öllum ástæðum ætti maður að gera það sem maður segir. Amk segja allir mér vitrari að barnauppeldi sé ekki einræða foreldris heldur það sem við gerum. Svo er líka ótrúlega ósmart að segjast vera eitt eða annað en láta samt ekki svoleiðis. Það fer alveg svakalega í mig þegar fólk er svoleiðis. Þetta er spurning um að vera heiðarlegur.

VELGENGNI

Hvenær á maður velgengni að fagna? Er það þegar maður hefur eignast allan peninginn? Er það þegar maður er orðinn frægur? Er það þegar maður á rosa marga fylgjendur á samfélagsmiðlum? Er það kannski þegar einhver annar segir það?

Ég held að það hljóti að vera að ég ákveði hvenær ég get fagnað velgengni. Velgengni ætti að geta verið ýmislegt. Í augnablikinu gengur mér vel að vera kreatív á hverjum degi. Það er verkefni sem ég beit í mig fyrir 75 dögum, það er s.s dagur 76 í dag. Sagði reyndar frá þessu hér fyrir einhverju síðan. Þegar ég fór að spá í því þá er það ekki bara í þessar 5-60 mínútur á dag sem ég nota í að teikna eða mála sem ég er skapandi, ég er skapandi meginhluta dags, líka þegar ég prjóna, hekla, hanna vefsíður, flauta í þverflautuna og skrifa blogg. Ég skapa líka líf mitt frá sekúndu til sekúndu, frá hugsun til hugsunar en það er önnur saga.

En 76 dagar krakkar! Fyrir mig sem er sveimhuga með meiru og geðbilað upptekin yfir höfuð er það nú bara sérdeilis ágætt. Og þessvegna fagna ég velgengni í dag. Ekki útaf því að ég er að framleiða hvert meistaraverkið á fætur öðru eða slá í gegn í foreldrahlutverkinu eða neinum öðrum afkima lífs míns.

Hallilúja og hér er smá sýnishorn. Ég er að rembast við að blogga þessum myndum hér : kristingudmunds.is.