“Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli” Þessir sem gera heildarmyndina ánægjulega þegar yfir allt er litið. Það finnst mér. Var ég búin að segja frá því að ég er komin í blæserenseblet aftur? Ó MINN GUÐ hvað ég er ánægð með það. Maður lifandi, ég á ekki aukatekið orð. Þar eru ekki allir sem voru þegar ég var síðast, en sumir. Nokkur af börnunum, eða þá kannski 12 til 14 ára, eru nú orðin að alvöru mönnum sem eru að klára framhaldsskólann. Eldri hjónin Birgit og Jakob eru hætt en vinkona mín hún Louise, hún á íslenska mömmu, sem líka spilar á flautu er þarna ennþá. Dásamlegt hreint alveg.

Bara það að geta farið í tónskólann þó ég sé femmogtræðððvöh er að gefa mér ótrúlega mikið. Það er líka að gefa mér trukkfylli af gleði að geta sent börnin í það sem þau vilja og hafa gaman að. Þrettándinn sér ekkert annað en fótbolta. Sprengjan þeytir lúðurinn og dansar. Fagri æfir karate og fer í myndlistaskólann. Ég fer í tónskólann. Bjútíbína kemur með í þetta allt saman. Eiginmaðurinn æfir kjötsteikingu.

Eitt af því sem er gott við að hafa flutt af landinu sínu og frá fólkinu sínu er að geta sent erfingja krúnunnar í hitt og þetta sem þeim finnst skemmtilegt og gefur þeirra lífi tilgang og þeim ánægju. Ég er bara þeirrar skoðunar að það sé svo ótrúlega margt þarna úti annað en bækurnar í skólanum, sem börn ættu að stunda og prufa. Eins og músík og íþróttir.

Fyrir mér er það stórkostlegt að kerfi sem leyfir að láglaunafólk (dúd, ég er heimavinnandi!) geti sent þrjú af börnum sínum í eina til tvær tómstundir án þess að það setji fjárhaginn á hvolf. Hér er hægt að sækja um svokallað frípláss. Fríplássi er útdeilt til þeirra sem hafa tekjur undir ákveðnu marki. Við erum ekki það tekjulág að við fáum 100% frípláss, en við fáum prósentu í samræmi við launin.

Það gerir að í staðinn fyrir að borga 60 þúsundi íslenskar fyrir önn af fótbolta borga ég 600 (12000isk) fyrir það hér. Í staðinn fyrir að borga 80þús á önn (sinnum tveir síðan, því bæði Sprengja og Fagri voru í fimó), þá borga ég það fyrir tvær annir af dansi hér. Í staðinn fyrir að borga fullt tónlistaskólagjald fyrir krakka (ég er ekki með í þessu fríplássdæmi, svona sem fullorðin) þá borga ég bara 45% af verðinu og í staðinn fyrir að þurfa að punga út að mig minnir milli 3 og 4 þúsund dkk fyrir veturinn í myndlist, þá borga ég 400… fyrir allan veturinn.

Þarf ég nokkuð að fara útí hve dásamlegt það er að þurfa ekki að reka bíl? Hér auðvitað hjólum við og tökum svo metró. Metró/lest/strætó er samt lúmskt dýrt ef maður notar það mikið, þannig að við notum það lítið núna eftir að Bjútíbína fékk hjólastólinn :)

Það er merkileg tilfinning að finnast maður vera heima, einhversstaðar annarsstaðar en.. heima hjá sér. Þ.e það er merkilegt að una sér betur í öðru landi en því sem maður er fæddur og uppalinn á og geymir manns móðurmál… og alla fjölskylduna, sem við söknum mjög mikið.
2014-09-25 17.00.12

Bjútíbína að hertaka bróður sinn og kíkja á hvað hann er að sjá í iPadnum.2014-09-27 10.29.41

Hér eru laugardagsskólar sirka tvisvar á ári. Nú í haust var hann sem endapunkturinn á þemaviku. Ég man ekki hvað þemað heitir en Sprengjan eyddi vikunni í að þróa, hanna og búa til hinn fullkomna skósóla. Hún átti að koma með gamlan skó og skar hann upp til að athuga hvað var þar inní. Svo voru gerðar hinar og þessar tilraunir og endaði hennar hópur með að búa til skósóla (sem hafði band yfir svo hægt var að fara í hann) sem saman stóð af sogrörum, pappa, klútum og límbandi. Sogrörin því loft er fljótast að hitna. Þrettándinn var að vinna í að finna lausn á ósonlagsvandanum. Hans hópur stakk uppá því að byggður yrði múr, eða einskonar stífla úr beton (að mig minnir) í kringum báða pólana, svo að ef ósonlagið myndi hverfa þá myndi ekki flæða yfir jörðina. Merkilegar pælingar finnst mér og mikilvægar.

Bjútíbína prufaði sig áfram í margmenninu á skólalóðinni, hún var ekki allllveg viss..2014-09-27 13.02.49

Græna peysan mín. Úff, ég svitna nú bara. Það er eitthvað pikkúl í henni, eða þá að ég skil ekki almennilega uppskriftina sem er á ensku.. ég vil að hún sé búin að það strax.
2014-09-27 13.13.24

Á leiðinn heim frá karate á laugardegi. Fundum maríuhænu. Mér er sagt að þær fái einn svartan punkt á ári og þessi á myndinn er þá 18 ára gömul. Hann vildi taka hana með heim og við ætluðum þá að bjóða henni heimili í fína gróðurhúsinu mínu (eða á ég að kalla þetta frekar gróðurskýli..) á svölunum, því mér er líka sagt að maríuhænur éti lýs, sem ég fékk nóg af í sumar. Það má ekki gleyma Fagra í öllu havaríinu með táningshegðun, táningsbólur, ungbarnakúk og þrif. Hann er bara 8 ára. Það sagði hann um daginn einhverntíma þegar ég spurði hann hvort hann gæti ekki tékkað sjálfur hvort það þyrfit að klippa neglurnar, “nei mamma, ég er bara 8 ára strákur!”

Hann er samt merkilegur um margt, það hafði safnast eitthvað í þvottinn hjá mér og hann kom af klósettinu alveg svakalega hneykslaður og sagði mér að það væru eiginlega tvær fullar körfur af þvotti þarna inni, og líka smá á gólfinu, en EKKERT í þvottavélinni..ójæja. Ég er farin að þvo. Vill ekki vera skömmuð af þessum sem er bara 8 ára.