Eitt sem er…ég hef ekki einusinni rætt það við Bóndann en grunar nú að hann hafi séð á mér hver staðan var.

Þið vitið hvernig það eru karlmenn sem eru með skegg í andlitinu. Sumir náttúrulega meira en aðrir og allskonar á litinn geta skegg líka verið. Stundum er hægt að segja  að karlmenn séu í svona ullarsamfestingi með áfastri lamhúshettu, gat fyrir tær og gat (í flestum tilfellum) fyrir fingur og svo fyrir augu og nef.En semsagt langflestir af þeim sem eru með typpi eru líka með skegg.

Á mér er svosem ekkert typpi, ég er jú pía. En af einhverjum undarlegum ástæðum hafa mér verið að vaxa óþægilega þykk og stíf búkonuhár. Nú voru búkonuhárin orðin það mörg að ekki var lengur hægt að kalla það fyrir eitthvað sem fyrirfinnst á píum. Þannig að ég neyddist til að brjóta odd af öngþveiti mínu og játa að ég var komin með skegg. Hvað er til ráða þegar pía er ekki tilbúin til að breytast í mann??… það er góð spurning. Ég hef náttúrulega kyrjað “beuty is pain” og kippt hárunum af með vaxi af einstakri hörku. Ég hef líka, þegar andlitið er allt orðið út í inngrónum hársekkjum reynt háreyðingarkrem, en þau vinna ekki á þessum þykkustu svo þau varð ég að plokka frá. Smart, ég veit.

Það var síðan um daginn að ég fékk bara nóg af því að vera næstum þrítug (ss. ekki meira en það) og það er að koma græneygður vetur með dimmu, kulda og öllu draslinu að ég fór á mitt elskulega internet og leitaði upplýsinga um hvað píur með skegg gera til að losa sig við það. Jú, laser hárpokaeyðing er málið. Og ég pantaði tíma og fór þegar ég var búin að safna dágóðum hýung.

Ég var búin að segja frá því að hárgreiðslustofur hér eru t.d stundum teppalagðar og hér er bara allt annar standard á dæminu. Ég fór á snyrtistofuna Face and Body eða eitthvað svoleiðis. Maður ætlar að þegar maður gengur inná snyrtistofu sé þar biðstofa, mjööög lýtalausar afgreiðsludömur og vellyktandi. Þar ættu líka að vera sér herbergi með hurð og öllum græjum í hverju herbergi fyrir sig. Það er amk reynslan sem maður hefur heiman að, í þetta eina skipti sem ég hef farið þar.

Stofan var semsagt á stærð við þumalfingur og var einn snyrtibekkurinn frammi og annar í skoti með hengi fyrir. Dömurnar voru alveg sminkaðar en vúbbsívú hvað þær voru samt líka ótrúlega…heimilislegar. Sú sem rafmagnaði skeggrótina á mér svo hún lét lífið var veeeel í holdum með brjóst til Reykjvíkur. Ég fór í skotið með tjaldinu fyrir.

Ég lagðist á bekkinn og bjó mig undir sársaukann. Þá dró hún yfir mig lampa eins og Amma Ásta saumaði með, með svona stækkunargleri og ég leit uppí lampann, gat ekki annað því hann var alveg upp við mig, og sá að lampinn var allur skítugur og gulur. Svo, því hún þarf að vera nálægt til að sjá skeggið, þá andaði hún svo í andlitið á mér. Í svoleiðis stöðu (t.d eins og í troðfullum Strætó, og á öðrum stöðum þar sem einhver andar á mann) vill maður anda inn þegar hinn er nýbúinn að anda út, þ.e allir anda inn á sama tíma, svo maður sé ekki bara að anda inn því sem hinn andaði út. Blessunin var því miður of vel í holdum svo hún andaði svo hratt að ég varð annaðhvort að anda að mér því sem hún andaði svona hratt frá sér eða hætta að anda..það gefur auga leið hvað ég neyddist til að gera.

Og þarna lág ég á meðan hún drap hársekkina með leysigeisla, andaði því að mér sem hún andaði frá sér með síðan brjóstin á henni fyrir húfu. Svona brjóstagóð kona ætti að fleygja þeim aftur fyrir svo kúnninn þurfi ekki að heimsækja hárgreiðsludömuna líka til að láta laga á sér fluglahreiðrið. Já , fegurð er erfið það er nú bara þannig. Ég hefði náttúrulega líka getað valið að bíða bara og sjá hvort ég fengi ekki bara typpi líka, þá hefði ég ekkert þurft að hafa neinar áhyggjur af því að vera með skegg.