Þó ég hafi komist í gallabuxurnar þarna um daginn þá er ég aldrei í þeim. Þær eru þröngar og ég hef ofnæmi fyrir því að vera í of þröngum fötum. Finnst það óþægilegt og sé ekki tilganginn með því.. já þó svo að ég hafi komist í þær þá vantar mig alveg að losna við vömbina, sem vellur svona líka ósmekklega yfir ekki gallabuxnastrenginn (hvaða kona er ekki með vömb yfir ósveigjanlegan gallabuxnastrenginn) heldur íþróttabuxnastrenginn.

Ég hef þá, eins og ó svo oft áður verið að hugsa um hvað ég er að setja oní mig, þó ég sé ekki með megrun að leiðarljósi, meira svona að reyna að raða í mig hollustu en ekki óhollustu.

Ákvað núna rétt áðan, fyrst það rann upp fyrir mér að ég hafði étið 5 kleinur frá því eftir að ég át 5 kleinur og mjólk í kvöldkaffið og þar til kl 13 í dag. S.s var svöng eftir allar gjafir og fékk mér kleinur til að fleyta mér yfir sárasta hungrið, s.s ákvað rétt áðan að gera mér þá sjeik, sem mér finnst vera betra orð yfir smúþí, og orðið búst vil ég alls ekki nota.

Sjeikinn er svo ljótur að það er ekki hægt að taka mynd af honum. En ég setti í hann þetta og hann bragðast mjög vel:

  • 4 frosnir spínatkögglar, þeir fást í frystinum í búðinni
  • 1 banani, bara normal banani
  • kannski hálf tsk kanill eða svo
  • 1-2 dl haframjólk/möndlumjólk, (hrísmjólk er svo out, enda komst upp að í henni væri einhver óbjóður)
  • Slatti af bláberjum frá bænum þar sem Bogga og Tommi búa.. nú man ég ekki hvaða bær það er, en sjálfsagt er hægt að nota önnur bláber.. það verður bara að taka áhættuna á því.
  • Matskeið kakónibbur
  • Matskeið chiafræ

Nú, allt í blandarann að sjálfsögðu. Ekki kaupa þér Russel Hobbs matvinnsluvél og blandara, það eru verstu græjur sem ég hef á ævinni átt og þá hef ég átt margar lélegar tegundir sem ég hef verið að kaupa fyrir slikk. Nei, þú mátt ekki koma með rökin að það sé betra að kaupa sér svona græju á 100.000 mér finnst það vera bilun.

Anyway, þú kannt þetta, allt í blandarann og blanda. Smakkast vel. Ég veit því miður ekki hve nákvæmlega gott þetta er í næringargildum séð en ábyggilega er allt á fullu inní mér núna að andoxast og fá járn og húðin mín er sennilega að yngjast um 10 ár as we speak.