Það er þetta með hversdaginn. Þrátt fyrir að honum fylgi allskonar krumpuð fullorðinsvandamál, þá er hann oft bara svo ágætur. Enn ágætari þegar ég hef keypt rósir á eldhúsborðið mitt. Þessar eru líka svo fallegar. Þær eru hér, núna viku eftir að ég keypti þær, í fullum blóma, ennþá! 
blom

Við höfum auðvitað verið að brasa eitt og annað. Fór um helgina síðustu með seinni 3/4 af erfingjum krúnunnar, 1/4 var í fótbolta, útí skóg. Það var mega gott veður og ég ákvað að ég skyldi taka myndir af garni þar, fyrir búðina mína.
dadyr

Elska svona surpræs! Eiginlega um leið og við vorum komin inn í skóginn rákumst við á þennan félaga, dádýr, þau eru reyndar tvö þarna.garn

Fannst litirnir í garninu mega flottir innan um brúnleitan vorgróðurinn.

sindri-i-tre

Þau ætluðu  nú varla að nenna að koma með blessuð börnin, en þar sem þau vita að það er ég sem ræð, þá var ekkert maldað neitt sérlega mikið í móinn. Enda, um leið og þessir ormakrakkar eru komnir út fyrir hússins dyr hefst klifur og leikur og hamagangur annar.

ss

Ekki svo mikill stærðar munur á þeim blessuðum. En góð var ferðin. Amagerfælled er alltaf einn af mínum uppáhaldsstöðum hér í Köben. Ég veit nú samt ekki alveg hvað er að gerast þar inni, það er held ég sveimér búið að grysja hálfan skóginn í burtu… ég ætla rétt að vona að það eigi ekki að mann-raða öllum trjánum og alls ekki að það verði malbikaðir fleiri stígar. Kann að vera gott á köflum, en mikið meira sjarmerandi og gaman að hjóla í gegnum skóginn, þar sem hann er ennþá bara skógur, ekki vegur með trjám í kring.

vorskogur

Vorskógur. Allsber ennþá en hin og þessi tegund af gulum, hvítum og fjólubláum blómum er farin að skjóta upp kollinum hér útum borg og bý. Ekki á þessari mynd, þarna er allt ennþá bara í leyni.
kemst-eg-a-hjolid

Ég mátti á pósthúsið í dag að sækja vörur. Ég sótti Bjútíbínu fyrst og brunaði svo með hana á hjólinu sem leið lá á póst.. eiginlega póstskonsuna en ekki pósthúsið. Pósthúsið fyrir okkar svæði var fært úr Bella Center, sem mér fannst vera súper góð staðsetning, svona við hliðina sko, í Irma (matvörubúð) sem er eiginlega við hliðina á Fields (ein metróstöð frá okkur). Póstskonsan í Irma er svo lítil að eymingja afgreiðslukonan, sem hefur greinilega reykt frá sér fagra fífilinn sinn, mátti varla vera með stærri afturenda, þá hefði hún rutt öllum pökkunum úr hillunum fyrir aftan. Við erum að tala um bara að þetta sé sirka eins og meðalstórar svalir á breidd og lengd.

Ég sótti kassann og tróð honum á þar tilgerðan bögglabera en fékk síðan skyndilegar efasemdir um það hvort ég myndi komast með Bjútíbínu og kassanum á hjólið. Það hófst á endanum.mm

Ok. Ég er fallin. Fallin með 4,9. Hvaða andskoti er það að geta ekki látið þennan ófögnuð vera? Ég fór í búð á leið heim úr vinnu og í algjöru stjórnleysi keypti ég þennan gula fjanda og át hann hálfan á leiðinni heim. Ekki bara er ég háð þessu drasli og kaupi poka án þess að vilja það, heldur finn ég mig líka knúna til þess að kaupa…

bok

…línustrikaðar bækur þó ég hafi ekkert við þær að gera.