Ég hef aldrei þolað duftið sem kemur með í skálina þegar maður sturtar síðasta morgunkorninu úr pakkanum. Mér finnst það vera óþægilegt undir tönn, dreifist einhvernveginn útum allan munn og gerir morgunkornsskálina ljóta á að líta. Ég vil hafa morgun matinn bara svona klipptan og skorinn, ekki dreifðan í einhverri  óreyðureglu.

Það er reyndar margt annað sem ég ekki þoli. Það vita nú lesendur mínir vel. EN! Dúkkaði ekki enn eitt upp varðandi mat og hvað má og má ekki gefa smábörnum.

Já. Hvar værum við eiginlega stödd ef ekki væri búið að gera þessar rannsóknir allar. Sennilega lægjum við steindauð úr ofnæmi einhversstaðar úti í skurði. Bara fjöldaofnæmisdauði.

Fyrst að ég á 4 börn finnst mér einmitt eins og ég hafi eitthvað að segja um það hvenrig þetta hefur breyst á síðustu að verða 14 árum. Meira að segja á milli tveggja elstu barnanna, sem eru fædd á sínhvoru árinu, voru breytingar. Átti ég þá að halda að ég hefði gert öðru hvoru þeirra hræðilegan óleik eftir því hvað ég gaf eða ekki gaf þeim að borða?

Þá var t.d ekkert verið að ræða lengd brjóstagjafar og ég fékk á tilfinninguna að ef ég svo mikið sem myndi sjóða fisk í 100 km radíus við börnin þá myndu þau fá ofnæmi, sama á við um egg og hnetur. Grautur strax uppúr 3 mánaða aldri takk fyrir bless.

Reyndar man ég ekkert alveg hvað var í gangi þegar Fagri var lítill. Hann er hinsvegar bæði stór og sterkur í dag og hefur alla tíð verið svo ég hef ábyggilega farið að settum reglum..

Eiginlega, ef maður horfir á smábarn, þá sér maður alveg að það getur ekki borðað neitt svakalega stóra bita af neinu og alls ekki neinu hörðu. Svo hafa þau líka svo fjári lítið kok. Þau eru lengi lengi ekki með neinar tennur heldur, svo fyrir mér gefur það auga leið að vera ekki að bjóða þeim uppá hnetur t.d.

EN! Heyrði ég ekki bara í útvarpinu um daginn að það hafi nú verið gerð rannsókn sem þóttist sýna að í raun og veru væri bara betra að byrja að kynna börnum fyrir hnetum strax uppúr 6 mánaða, jafnvel fyrr.

Alltílagi. Eigum við þá öll að fara útí búð og kaupa okkur prófessjónal matvinnsluvél til að geta maukað allar þessar blessuðu hnetur? Ég á nú matvinnsluvél, sennilega er hún eins og Mac Donalds dót, miðað við svona prófessjónal græju, en það tók hana ýktan tíma að mala heslihnetur í heimagert súkkulaðihnetusmjör.  Ekki förum við að láta 6 mánaða börn hafa heilar hnetur?… eða hvað. Á kannski að rífa þær á rifjárni og dreifa yfir brjóstin svo þau geti fengið smá hneturyk með sopanum?

Gott ef ekki að næsta rannsókn muni sýna fram á það að maður eigi að maka kókosolíu á tútturnar, dreifa síðan hneturyki yfir og láta svo krógann fá sér að drekka.

En þú veist. Í mörg, mörg ár hefur því verið haldið að okkur að gefa ekki börnum hnetur vegna óheyrilega hættulegs ofnæmis sem af þeim getur hlotist. En núna var gerð ný rannsókn, ég held að það sé bara ein rannsókn, sem segir að það sé skyndilega betra að börn fái hnetur mikið fyrr.

Ég hef þá nokkrar spurningar:

  • Hver týmdi börnunum sínum í rannsóknina?
  • Afhverju hlaupa menn strax í útvarp allra landsmanna og tilkynna að það eigi bara að byrja að gefa hnetur strax?
  • Afhverju er ég svona brjáluð yfir þessu?

Það er útaf því að það er ALLTAF verið að segja hvað maður á að éta eða ekki. Hver er að segja þetta? Eru það þeir sem eru að selja það sem á að borða? (já, pottþétt). Er það læknirinn sem framkvæmdi rannsóknina sem gerð var? Er það einhver sem sponsoraði rannsóknina sem gerð var?

Æ dónt nóf.