Myndefni frá Ístex.

Hér í Kaupmannahöfn er komið alvöru haust. Það þýðir m.a að það er fallegt um að litast, tré og annar gróður í þann mund að missa síðustu ótíndu ávextina á jörðina og svo, yfir þennan tímapunkt má mjög greinilega sjá hver er íslendingur og hver ekki hér í borg. Og það sést að sjálfsögðu á því að við erum öll á lopapeysunni akkúrat núna.

Mamma prjónaði lopapeysuna sem ég geng í núna, hún heitir Afmæli og er eftir Védísi Jónsdóttur. Eiginmaðurinn minn er líka í peysu eftir mömmu, líka þeirri sem heitir Afmæli… og já, við erum þannig fólk! Við förum út að ganga í eins fötum, hver hefði haldið.

Íslenska lopapeysan á sér reyndar ekki svo langa sögu, kom ekki fram fyrr en á 6.áratugnum en enginn veit hvernig. Á veraldarvefnum stendur einhversstaðar að kona Halldórs Laxness hafi sótt sér munstrið á ferð sinni um Chile um árið, líka að listmálarinn Louisa Matthíasdóttir hafi búið til fyrsta lopapeysumunstrið. Sumstaðar er talið að munstrið sé upprunalega grænlenskt og enn aðrir halda að munstrið komi frá peysum sem framleiddar voru í Bohusléni í Suður-Svíðþjóð.

“…en vegna þess hve langsóttar þessar kenningar eru, að til þess að líkja hinni íslensku lopapeysu við t.d grænlenskan kvenbúning eða peysur frá Svíþjóð þá hefði þurft að breyta hönnuninni ansi mikið, þó þær kunni að minna á þá íslensku, bæði hvað varðar snið, munstur og efni.”*

Þessvegna er íslenska lopapeysan talin frumhönnun og sannarlega íslensk.

Lopapeysur eru eins og nafnið gefur til kynna prjónaðar úr lopa, frægar fyrir að vera prjónaðar úr íslenskum lopa og voru á tímabili (einhverntíma í fyrndinni) mjög vinsæl útflutningsvara. Ég myndi nú  samt segja að lopapeysan sé orðin mjög vinsæl aftur meðal ferðamanna, kannski með aukinni athygli sem Ísland hefur fengið síðustu nokkur ár, sem viðkomustaður ferðamanna.

Þegar fyrstu Lopa blöðin komu út frá Álafoss, þau er hægt að skoða á síðu Ístex, voru flestar peysur prjónaðar úr Álafosslopa eða þreföldum plötulopa. Í dag eru fleiri uppskriftir með tvöföldum plötulopa, Léttlopa, einföldum plötulopa og einföldum plötulopa og Einbandi.

Það er síðan afar gaman að skoða hvernig peysan hefur þróast í gegnum tíðina. Á myndunum hér fyrir neðan má sjá myndir af lopapeysum og hvernig bæði munstur og snið hafa þróast í gegnum síðustu áratugi. Myndirnar eru skjáskot af Lopablöðunum sem skoða má á síðu Ístex.

Myndefni frá Ístex.

Myndefni frá Ístex.

Helst er kannski að taka eftir að sniðin eru meira aðsniðin í nútímanum heldur en t.d á 9. áratugnum og í mörgum tilfellum hefur hönnuður létt á mynstrinu, einfaldað það. Og svo hefur lopapeysumunstrið verið fært yfir á aðrar flíkur svosem kraga, slár, flíkur á hunda og hesta. Sjálf á ég jólakúlu með lopapeysumunstri, hún er æðisleg og þjóðleg og gaman að hengja hana á tréð.

*Heimild: Ítex.