Get ég hætt að borða sykur? Get ég breyst? Get ég brotist út sem besta útgáfan af sjálfri mér?

Ég er svakalega súr útí sjálfa mig yfir því að vera ekki búin að sigrast á sjálfri mér, krakkar. Það er 5.janúar! FIMMTI! Ekkert að gerast og allt er glatað.

Fyrst ég hef ekki náð markmiðum mínum í fyrsta kasti og helst áður en þau duttu mér í hug þá, ef ég þekki mig rétt, mun ég henda inn handklæðinu og hætta við allt og breytast bara í sykurétandi feitabollu með ónýtan skjaldkirtil og massavís af bólum og skeggi.

Er málið að ég þori ekki að takast á við þetta? Held ég að ég sé að missa af einhverju. Er ég stressuð yfir því að verða betri en ég er, held ég kannski að ég eigi ekki betra skilið?

Ég er farin að þrá breytinguna! Fer ekki að koma að þessu?