Nýtt ár nýtt útlit, er það ekki málið? Sko hér á blogginu. Ég er sennilegast ekki ein um það en ég verð alltaf súper meir 31.desember. Alveg eins og ég sé að kveðja gamlan vin, góðvin. Merkileg tilfinning því þessi dagur virkar alveg eins og aðrir dagar, hann rennur upp og svo hallar honum. Klukkan tifar eins og hina dagana og það kemu næsti dagur. Eini munurinn er ártalið.

Við áttum við hitt og þetta á þessu ári. Verstur var febrúar þegar við tókum við framtíðarheimili voru í algjörri rúst með mannakúk og mölflugum í bland. Og ekki bara það heldur kom ekki búslóðin okkar þegar hún átti að koma, s.s sama dag og við fluttum inn, þannig að við vorum með tóma, ónýta íbúð fyrstu nóttina.

Ég stend í þeirri meiningu að ég hafi fengið taugaáfall. Bara svona taugaáfall eins og mér er von og vísa að fá. Ekki þannig að ég leggist bara í rúmið í ruglinu heldur fríka út inní mér. Það hlýtur eiginlega að vera því ég fæ reglulega martraðir um að við séum aftur komin með mölflugur í íbúðina eða þá að mölflugur af öllum stærðum muni eftir smá hefja innreið sína. Ég grínast ekki, ég fékk í það minnsta stórt andlegt áfall.

Reyndar er mér, að ég sé, mjög títtrætt um andleg áföll af hinu og þessu tagi á árinu 2014. Það er vel. Það er bara fínt að tala um hlutina. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé ekki merki um veikari persónuleika að það hafi verið skorað á mann andlega.

Eiginlega allt annað en febrúar á þessu ári var gott. Við fórum í fjöldann allan af gönguferðum við Eiginmaður. Allir í fjölskyldunni áttu afmælisdag og það er líka vel. Hér í enda árs eru líka öll börnin svakalega hress og öll hafa þau þroskast svakalega mikið í ár. Á eiginlega alla kanta.

Ég verð að segja að mér líkar alveg ágætlega vel við árið 2014. Ég veit hinsvegar að nú er komið að einhverskonar endalokum inní mér.

Fyrir einhverjum árum hafði ég setninguna ” Ég nenni” fyrir setningu ársins, eða mottó ársins. Í ár er ég búin að upplýsa að það sé “1, 2 og framkvæma” en ég er eiginlega aðeins að bakka með það.

Ég vil frekar að orð ársins sé  “BYRJA”. Ég gæti verið mjög lengi á einum og svo aftur mjög lengi á tveimur, svona áður en ég kem mér að því að framkvæma. Svo ég held að heppilegra orð sé bara að byrja. Just do it! Bara láta vaða.

Ég hef alveg svakaleg plön fyrir þetta ár. Eiginlega svo svakaleg að ég er komin með nettan kvíða fyrir að vera lúser enn einu sinni. Allir sem hafa lesið þetta blogg vita að ég hef byrjað á milljón hlutum og ég held svei mér að enginn þeirra hafi farið eins og ég hafði ætlað. Oft um að kenna skyndihugmyndum. En ef ég bæti við orð ársins “skuldbinding” (ég get varla þetta orð.. skuld-binding, ég er ekki að taka lán hjá mér ..) ég meina að ef ég byrja bara og er síðan svakalega dugleg að halda mér við efnið þá held ég að ég muni sjá árangur. Eða ég veit að ég mun sjá árangur.

Ég ætla að vera opin, albúin, heitbundin sjálfri mér sem framkvæmara. Er þetta ekki eitthvað? Þaheldénú.