Hvað ætli ég hafi skrifað marga pósta með fyrirsögninni “Eitt og annað” ? En það er sumsé komið að yfirliti.

2015-01-28 17.16.42

Þessi tvö. Haha, þau eru svo fyndin. Þessi lýður minn hefur verið með eindæmum duglegur síðustu vikur. Bara svona jákvæð (fyrir það mesta amk) og gengur vel í skólanum og íþróttunum og tónlistinni.

Fíflagangurinn í þeim er hressandi og ómissandi.

2015-01-08 14.19.57

Diddmundur fékk óvænt pláss af biðlista á píanó hér eftir áramót. Honum finnst það æði. Svo var það stuttu fyrir fyrsta tímann hans að ég ákvað að fara inná dba (svona síða með notað til sölu), laust svona niður í hausinn á mér að kíkja þar akkúrat á stundinni og viti menn, þar beið mín rafmagnspíanó á slikk og ekkert (næstum), fyrri eigandi nýbúinn að setja það inn þegar ég hringdi. Hann hefði alveg eins getað hringt bara beint í mig.

En þarna er hann í fyrsta tímanum, ég sit þar inni og laumast til að taka mynd.

2015-01-15 15.23.00

Þrettándinn stækkar og stækkar. Fór í heimsókn til föðurhúsanna á Íslandi í vetrarfríinu sem stóð hér yfir í síðustu viku. Þó hann sé athyglissjúkur, tímafrekur og uppáþrengjandi (þú veist að þetta er djók, ekkert hjartaáfall af hneykslan), þá er alltaf svo ljúúúúft að fá hann heim!2015-01-13 12.05.03

Ég hef alltaf verið hrifin af strumpum. Fékk mér einn.
2015-01-11 15.47.21

Fórum útá svalir aðeins að taka til. Hafði fokið eitthvað til þar gróðurhúsið mitt og eitt og annað svona sem þurfti að sópa upp.
2015-01-18 13.00.32

Þetta finnst mér eitt af því sem er svona gaman við þessa borg, en það er að það er eitthvað allstaðar. Þarna er hestur. Svona á meðal hjólhestanna er hestur. Á bak við græna vegginn eru metró framkvæmdir að ég held örugglega. Á flestum stöðum þar sem búið er að girða af vinnusvæði er búið að gera einhverja skemmtun á veggina, eða amk mála þá og skreyta aðeins. Þetta skiptir einhvernveginn bæði litu og svakalega miklu máli. Mér finnst kúl hvað er lagt uppúr að fegra.

2015-02-03 19.10.43

Ekkert endilega svakalega flókið. Þetta er annað dæmi um vinnusvæði sem búið er að girða og græja smá listaverk utaná vegginn.

2015-01-16 16.10.06

Ég get orðið svo hissa á því sem ég finn inní eldhússkápunum mínum. Liquid smoke? Fljótandi reykur, herrar mínir og dömur. 2015-01-16 11.42.32

Þetta er skemmtilegasti veggur í veröldinni. Hann er inni hjá mér, er ég ekki heppin. Við fengum þennan hring í brúðkaupsgjöf. Fyrst þurfti ég að velta honum fyrir mér, skoða að framan og aftan því þetta er jú bara hringur, eða platti með teygjum úr miðjunni og útyfir. En sjáðu hvaða snilld er að safnast þarna saman. Hinar og þessar myndir af krökkunum, hárlokkar frá því að þau voru lítil, hlutir sem þau hafa gert handa okkur í skólanum, kort frá þeim sem okkur þykir vænt um, miði frá ömmu, gamalt jarðsímaskilti sem ég hélt að Eiginmaðurinn myndi skilja við mig fyrir, íslenski fánin á priki OG perlaður, tónleikaarmbönd, einhverskonar peningur, spjald með stimpli af fæti Bjútíbínu frá því daginn sem hún fæddist og fleira í þessum dúr. Í kring er hitt og þetta sem er skólaföndur líka. LOVE IT!
2015-01-21 15.36.32

Flautuleikari uprennandi. Ég veit ekki hvað ég var að spá með að gefa mér tíma til þess að sækja símann og smella af mynd meðan hún hélt á sjötta af því sem mér stendur kærast. Hún hefði mjög auðveldlega getað farið í grallarabúninginn og grýtt henni í gólfið. Eins og hún gerði við símann minn hér ekki fyrir svo löngu.2015-01-19 14.21.18

Nýr reiðfákur. Nú er Eiginmaðurinn á hjóli fyrir herramenn og nú geta þeir sem koma í heimsókn fengið lánað hjól. Heimsækjendur geta valið um herrahjól eða kappaksturshjól, mæli ekki með kappaksturshjólinu.2015-01-18 15.38.55

Ég er að brugga vanilluextrakt. Þrettándanum, sem er með rosalegan áhuga á víni og skemmtanalífi, spurði mig hvort mér þætti vodki góður. Ég svaraði honum því að mér þætti það nú reyndar ekki, amk ekki eintómur… ég hef reyndar ekki drukkið vodka í nokkur ár. Hann varð eiginlega svolítið fyrir vonbrigðum þegar ég sagði honum í hvað hinn helmingurinn af vodkanum sem eftir er fór í að gera vanilludropa. Hann spurði mig líka um hvort ég hefði eiginlega einhverntíma farið í bæinn og að dansa og skemmta mér. Mikið hlýtur maður að líta leiðinlega út í hans augum hehe.

2015-01-31 14.04.56

Og hvað er þá hér að gerast? Jú, hér er ég að betrekkja eldhússtólaseturnar. Efnið á þeim var orðið frekknótt af eldhússskít eftir okkur, eða aðallega barnaskammirnar. Auðvitað verð ég að geta þrifið þetta almennilega svo ég fór og keypti vaxdúk. Klippti niður og heftaði í köku.

2015-01-31 14.07.32

Betra en ekkert. Eiginmaðurinn er búinn að vera að vinna í að mála þá undanfarið. Fjárans ólykt af málningunni samt.

2015-01-30 11.14.16

Þetta er leikskólinn hennar Bjútíbínu. Þarna inni er hún á vuggestue, eða vöggustofu. Það tók langan tíma fyrir hana að venjast þessu en nú er það komið. Hún veit hvað hún vill.

2015-02-02 11.48.28

Vegnaþess að eitt dekkið á vagninum hennar eyðilagðist með öllu og það tók alveg viku að fá ný, fórum við töluvert með metró fyrstu vikuna í Vöggustofuna.

2015-02-06 17.04.10

Það er líka svolítið við hæfi að fá svakalegt kvef þegar maður er byrjaður að sleikja dót sem 20 aðrar hornasir eru líka búnar að sleikja.

2015-02-01 12.22.20

Svona gerist síðan ef maður skyldi vera að flýta sér eitthvað. Þarna er ég að bruna, sko í orðsins fyllstu, á tónleika. Þurfti þá ekki einhver bátaskonsa að pota sér undir brúa á Íslandsbryggju, þannig að hún var að opnast akkúrat þegar mig bar að brú. Drepið mig ekki hvað þetta virtist taka langan tíma.2015-02-03 21.00.11

Allur er varinn góður bíst ég við, ef maður ætlar að drekka vatn úr flösku meðan maður les bók.
2015-02-07 15.04.20

Ok, svo, eins og þeir sem fylgjast með því hvað ég bardfúsa á Fjárhúss blogginu þá var ég að þýða prjóna uppskrift sem heitir Erfinginn. Prjónaði auðvitað blessað plaggið og hér er þá Eiginmaðurinn í því. Hvílík stelling…2015-02-07 15.03.44

Afhverju hélt maðurinn að hann væri predíkari í þessum ponsjópeysugjörningi? Hvern ætlaði hann eiginlega að blessa. 

2015-02-07 22.23.08Við erum lengi búin að berjast við hana þessa og svefntíma. Þegar Fagri var lítill fórum við í gegnum tímabil þar sem hann grét heilu kvöldin, svo mánuðum skipti, í rúminu sínu greyið. Við fórum á endanum til svefnhjálpara sem gaf okkur engin ráð sem við vorum ekki búin að prufa, en það merkilega við þá heimsókn var að sama kvöld, þá byrjaði hann að sofa venjulega. Ferlega furðulegt.

En, hún þarna! Kannski voru það minningar frá því hann var lítill að grenja öll kvöldin að við “nenntum” ekki að standa í streðinu eða bara að hún var heima og við ekki með neina rútínu á því hvenær hún færi á fætur, eða hún var svæfð á brjósti eða allt af þessu sem gerði að verkum að vorum að byrja bara núna um daginn að fara meðvitað og svæfa. Það hefur gengið upp og ofan.

Eitt kvöldið, þegar hún var í S-inu sínu og engin leið að fá hana til að leggjast gafst ég upp og fór bara aftur fram, enda þurfti ég að pissa og var orðin svöng aftur (jámm, hefur tekið langan tíma). Eftir svona hálftíma labbaði mín bara ein og sjálf inní herbergi, skreið uppí, boraði sig niður í kodda og sængur og steinsofnaði.

Ég bara varð að festa það á filmu sem og að skrifa það á spjöld sögunnar. Auðvitað hefur það ekki gerst aftur, hverskonar draumur væri það nú. Að svæfa barn er það leiðinlegasta sem ég geri. Mér finnst meira gaman að þrífa klósettið og hananú.