Hvað ef það yrði fjarlægður af mér einn útlimur? Hvernig myndi mér ganga þá að vera til? Sjálfst myndi ég væla enn meira en ég geri nú.

Reyndar hef ég netta hugmynd um hvernig mér myndi líða. Síminn minn er nefnilega í viðgerð næstu 14 dagana!

Það er ótrúlega óheppilega óþægilegt að vera ekki með þessa viðbót við innbyggða minniskubbinn í hausnum á mér, þetta millistykki milli mín og allra hinna sem í þögn eigum samskipti með því að lúta höfði og pota handahófskennt í skjá. Bara svona eins og að gera svona mors skilaboð og eiga samskipti með hugsanalestri. Vont að geta ekki tekið öll símtölin sem til mín berast og SVAKALEGT að geta ekki sent Eiginmanninum skipanir á sms. Hvernig á ég að fara að því að fjarstýra fjölskyldunni svona fjarstýringarlaus? Núna eru bara allir að gera sitt, á sínum hraða og ekkert að spá í hvað mér finnst um það! Ó minn Guð!

Af öllu þykir mér, nútíma manneskjunni, náttúrulega herfilegt að geta ekki tekið myndir af því sem ég er að gera og sýna alveröldinni þær.

Ef ég væri með símann minn núna þá myndi ég pottþétt taka mynd af eggjahrærunni með avocadóbitunum útá sem ég fékk mér í morgunmat. Ekki vegna þess að það er svona mikil snilld heldur vegna nýpressaða appelsínusafans sem fylgdi með og ég pressaði sjálf og bætti örlitlu engiferi útí. C-vítamín og heilsurót. Ég get varla lýst því hvað safinn er góður. MMM. Bara eins og sumar í glasi, ekki verra á fúlviðrisdögum sem þessum. OG! Ég á meira til inní ísskáp. Ég hef aldrei verið fyrir appelsínusafa úr fernu, enda eru þeir ekki appelsínusafar, heldur þykknissafar. Það er ekki það sama. Í þetta skiptið keypti ég appelsínur í neti á sama verði og fínn ökólógískur safi í fernu, pressaði hann sjálf og fékk engin aukaefni með í kaupunum. Fékk meira að segja sama magn úr appelsínunum og er í fernunni, eða 1 líter.

En þetta fáið þið ekki að sjá og ég verð að telja ykkur fátækari fyrir vikið.