Mig langar bara svo að vera manneskja sem tekst ætlunarverk sitt. Vera svona markmiðasetjari og ná markmiðunum. Vera góð í að skipuleggja tíma minn og fara að sofa ekki með allt í óreiðu í haus og geta ekki sofnað fyrir því hvað ég ætla að gera næsta dag.

Satt, ég hef sett markmið, eða ákveðinn ramma utan um þetta ár og mottóið er að bara gera, framkvæma, ekki liggja í dvala og þar frameftir götunum.

Afhverju það virðist vera mér ómögulegt að gera eitthvað svona eitt á hverjum degi, eða viku eða mánuði eða bara að gera einhverja skuldbindingu og standa við hana, skil ég bara ekki.

Það er ekki þannig samt að ég hlaupi frá vinnu, eða öllum heimilisþrifunum (hehe) og ég hef ábyggilega bara verið einhleyp í 1% af tímanum síðan ég átti fyrst kærasta og svo á ég 4 börn sem ég hef ekki hlaupið út frá ennþá.

Ég ætlaði sko í byrjun árs að blogga hér á hverjum degi. En svo, eins og gerist nefnilega líka þegar ég ætla að hætta að borða nammi, þá borða ég eins og enginn væri morgundagurinn, bara úða í mig útaf því að “þetta er síðasta, af því að ég er að hætta þú veist”, “hendi bara í eina kökuk, ég fer ekki að henda sykrinum, verð að nota hann” (og þar á eftir hef ég keypt svona 100 kg af sykri). Ég semsagt, í staðinn fyrir að halda mig við ætlunarverkið og setja hér nokkur orð (því af nógu er að taka og ég hugsa um það stöðugt) á hverjum degi, þá bara núll, NADA, EKKERT, slut, PRUT, og ekkineitt. Ýkt öfug.

Í dag er ég hinsvegar með lista og þá reglu að ég má ekki gera næsta atriði á listanum nema ég sé búin með atriðið á undan. Sem vefhönnuður/búðakona/bloggari/prjónari/húsmóðir get ég verið að vinna í allt að 15 verkefnum í einu.

Ég get:

  • sett í þvottavél
  • sett í uppþvottavél og meðan þær vinkonur vinna mun ég
    • ryksuga
    • setjast við tölvuna og :
      • opna facebook
        • svara því sem þarf að svara í tenglsum við Fjárhúsið
        • fylgjast með hvað allir hinir eru að gera og horfa á júsless myndbönd
      • opna gmail
        • skrifa tölvupósta til viðskiptavina
        • svara tölvupóstum frá viðskiptavinum
        • senda tölvupósta í sambandi við rekstur heimilis (þúst, hvaða helv “#$&”# reiknigur er þetta??, því miður kemst barn númer 1, 2, 3 eða 4 ekki þangað sem það átti að fara, foreldrapartý í bekk barns nr. 3?, afmælispartý fyrir barn 1 og 3? Heyrðu banki, mig vantar nýtt debetkort. Heyrðu læknir, ég þarf að panta tíma. Heyrðu augnlæknir, við þurfum að breyta tímanum sem við vorum með. Heyrðu lögregla, það er búið að stela hér hjóli. Heyrðu Eiginmaður, geturðu kippt með mjólk. Heyrðu pabbi, viltu kaupa fyrir mig fisk. Heyrðu heimilisbókhald, afhverju gengurðu alrei upp? Heyrðu.. hvað eigum við að borða í kvöld?
      • opna búðina
        • taka myndir og búa til grafík
          • útaf því að tölvan er hæg stundum get ég í bland
            • byrjað að skrifa bloggpóst
            • taka upp kennsluvidjó
            • skoða meiri feisbúkk
        • pakka og senda vörur
          • laga bilaðan prentara
        • gera allskonar bisness á bakvið tjöldin
          • markaðssetja
          • laga hitt og þetta
          • læra hitt og þetta
      • taka mér stöðu til þess að byrja að vinna í öllum vefverkefnunum sem ég er með, í augnablikinu eru þau þrjú.
    • þrífa baðherbergið, mega pissulykt þar inni
    • hengja upp þvottinn
    • flauta
    • setjast við tölvuna aftur og endurtaka allt hér að ofan
    • … þú veist og svo framvegis!

Allt ofantalið er gert ekki hvert á eftir öðru heldur allt í einu. Hvernig er það hægt? Ég veit það ekki, en árangurinn er ekki ljós.

Borða eitthvað?.. nei, gleymdu að ég hafi haft rænu á því að finna útúr því. Þessvegna er einfaldur hlutur eins og morgunmatur á listanum yfir það sem ég ætla að gera í dag og má ekki gera neitt tvennt samtímis.

það er nefnilega þannig að maður hefur 100% tíma. Ef maður vinnur að tveimur verkefnum í einu þá skyldi maður ætla að maður hefði 50% fyrir hvort verkefni fyrir sig, en það er ekki þannig!

Það tekur svo mikinn tíma að finna sig aftur í hverju verkefni fyrir sig að rannsóknir sýna (þær eru til, en ég þarf ekki að benda á þær frekar en þeir sem halda því fram að sítróna og matarsóti muni lækna alla íbúa jarðar af öllum mögulegu… nújá og kókosolía) að það sé alveg 20% af tímanum sem fer í að koma sér í verkefnið aftur. Þannig að ef ég vinn hér 8 tíma vinnudag, þá er alveg eins og ég hafi hent rúmlega einum og hálfum tíma í ruslið.

Það er síðan ekki hægt að skipuleggja tíma sinn. Maður á ekki tímann í þeim skilningi og tíminn er bara, hann líður bara, þú getur ekki beint skipulagt hann, en það er hinsvegar hægt að skipuleggja hvað maður gerir á ákveðnu tímabili. Er að reyna að láta það virka fyrir mig.

Og þá er komið að næsta verkefni á mínum lista. Hvernig lítur inn listi út? Ég er þegar búin að strika yfir 5 atriði á mínum, það er nú sigur í sjálfusér.