bill-i-kanalnumHvað er nú þetta?? Jú, þetta er einmitt bíll og hann er í kanalnum við hliðina á húsinu sem við búum í. Á laugardagskvöldið, þegar við áttum okkur einskis von, þá þustu (ég meina sko ÞUSTU) hér að fleiri en þrír slökkviliðsbílar og lögreglubílar. Úr bílunum þutu síðan menn með hunda sem ruku hér beint inní garð fyrir aftan húsið og geltu og geltu.

Okkur stóð eðlilega ekki á sama! Daginn eftir kom í ljós hinsvegar hvað hafði verið. Einhver aulabárður hafði keyrt bílinn ofan í kanalinn og sennilega stokkið uppúr rétt eins og væri með rakettu í rassinum og tætt af stað í átt að óræktinni fyrir aftan garðinn hjá okkur.

Bíllinn var dreginn upp í gær á mánudegi, en þangað til var stöðugur straumur af fólki að skoða og benda OG taka myndir. Ég gekk framhjá þegar dráttabíll kom til þess að toga hann uppúr, maðurinn sem vann við dráttabílinn þurfti að biðja fólk að fara frá því hann hafði ekki pláss til að vinna, það var svo upptekið við að taka upp..upptekið við upptöku.

Hann hefur bara farið yfir strikið greyið bílistinn sem keyrði útí. Öfgakenndur á einhvern máta.

Það sem er líka öfgakennt er hvað við notum mikið af eggjum, mjólk, hveiti og haframjöli. Mér reiknaðist til um daginn þegar ég hafði alltí einu keypt tvo 30 eggja eggjabakka á tveimur vikum og einn með bara 10 í að sennilega værum við að nota sirka 120 til 150 egg í mánuði. Síðan, þegar ég tek eftir því núna að 6kg af hveiti eru þegar rokin og það er bara 16. sept, þá reikna ég með að við séum að nota 12-15 kg af hveiti í mánuði. Þá er haframjölspakki númer 3 horfinn ofaní lýðinn. Þá reikna ég með 12 kg af haframjöli. Amk 2 lítrar af mjólk á dag. Það eru 60 lítrar.

Og hvað? Borðum við ekkert annað en egg, mjólk, hveiti og haframjöli? Jú. Ætli 15kg af kjúkling, fisk og öðru kjöti séu ekki eitthvað?

Hljómar eitthvað svo mikið þegar þetta er sett svona upp.