Ég veit ekki hvernig það fór fram hjá mér að skrásetja að Eiginmaður minn hinn rómantíski samdi til mín texta hér um hátíðarnar, við lag sem þegar er þekkt með Ragnheiði Gröndal.

Eiginmaðurinn er varla þekktur fyrir annað en mikið innsæi í garð kvenna, mikla og öflua rómantík og samskiptahæfileikarnir eru svo ótrúlegir að við þurfum bara eiginlega ekki að segja stakt orð við hvort annað, ég kannski segi eitthvað af og til, en hann, hann sendir mér bara hugsanir.

Hann hefur kannski verið búinn að hugsa svona mikið til mín að það bara braust út í söngtexta. Ég er náttúrulega í meira lagi upp með mér.

Upphaflegi textinn er svona:

Þú gafst mér skýin og fjöllin og Guð til að styrkja mig ég fann ei hvað lífið var fagurt fyrr en ég elskaði þig.
Ég fæddist til ljóssins og lífsins er lærði ég að unna þér og ást mín fær ekki fölnað fyrr en með sjálfum mér.

Og lagið sjálft er á YouTube, svona ef þú ert ekki að kveikja hvaða lag ég er að tala um.

Textinn frá Eiginmanninum til mín er síðan svona og þetta söng hann undurfallega, enda kominn af miklum söngfuglum.

Þú gafst mér skýin og fjöllin og… TUÐ! til að drepa mig, ég fann ei hvað lífið var glaaaatað fyrr en ég elskaði þig…

Meira varð auðvitað ekki úr textagerð.