arna-soley-8manada

Fröken Bjútíbína er 8 mánaða í dag. Tíminn líður hratt á gervihnattaöld! Það eru bara 4 mánuðir þar til hún verður eins árs. Ég heklaði handa henni húfu, lambhúshettu. Ég bjó hana til sjálf og set kannski fram uppskriftina af henni einhverntíma bráðum. Já já.

Annars er hér veðrið búið að vera með svo miklum eindæmum að ég var alveg rasandi hissa þegar sjónvarpsmaðurinn tilkynnti í gær að óveðrið Carl væri um það bil að fara að dúndra yfir Danmörku. Ehh. Verð að segja eins og flest allir Íslendingar í útlöndum að þetta er ekki “veður”. Alveg klárlega ekki veður sem á skilið sitt eigið nafn. Alveg er ég viss um að veðurfréttamenn á Íslandi þyrftu spes veðurnafnanefnd ef nefna ætti öll rokin sem vaða yfir landið.

Nei hér, þangað til í dag, hefur verið svona veður:

sindri-i-solinni

 

Bara allt í glampandi sólskini.

Mér fannst ég vera svo heppin um daginn þegar ég fór að sækja Fagra í skólann, ákvað að ganga Amagerbrogade aðeins, mér til heilsubóta, og athuga hvort ég finndi ekki sáðmold, sáðbakka og flugnanet fyrir barnavagn. Ákvað að fara inn Englandsvej, sælla minninga, og líta við í Kvickly. Kvickly dæmigerð búð með öllu í. Allt frá nærbuxum að ljósum á reiðhjól.

Moldina fann ég þar og fyrir eitthvert undur þá stimplaði kassadaman bara inn annan moldarpokann sem ég var með. Ég tók auðvitað ekkert eftir því fyrr en útúr búðinni var komið. Mér fannst bara ég hafði unnið í lottó!

Gekk til baka niður á Amagerbrogade. Leit upp á ljósunum sem ég stóð við og sá Tiger (búðina). Þar nefnilega hafði ég séð sáðbakka á 10 kall. Inn með mig og ég keypti mér sáðbakka… OG þessa dæmalaust ágætu vökvunarkönnu sem Fagri heldur á á myndinni.

Þá þrammaði ég áfram og datt inní búð fyrir smábörn, eða búð með smábarnavörur og þar lá kaupkonan með flugnanet akkúrat á vagninn sem ég er með og það á hálfvirði. Þvílíkur sigur á einum degi.

Ekki skemmti fyrir mér að Fagri sagði að það skemmtilegasta sem hann gerði væri að sá fræjum. AWW! Það ER þá einhver hér í þessari fjölskyldu sem hefur  kannski haft eitthvað smá frá mér. Ahh. Það er góð tilhugsun.

Annars eru allir hressir og bara frekar mikið kátir. Það er alltaf vel.