Já, daninn er byrjaður að skreyta hjá sér. Þeir eru sparnaðargrísir allir sem einn og er þessi hringur búinn að hanga þarna síðan ég flutti inn, þá yfir jólatíðina, ekki síðan í ágúst 2008. Ekki finnst mér nú neitt að því reyndar, hehe, en hef sjálf í hyggju að taka aðeins til í jóladótinu mínu. Ég er að spekúlera að henda drasli sem ekki hefur meikað það uppúr kassanum síðustu árin og svo líka henda því sem er ónýtt. Þá ætla ég líka að vera tilbúin með vel valið vopn til að murka lífið úr silfurskottuafbrigðinu sem flækist hingað upp með kössunum. Ég veit hreinlega ekki hvort ég get náð í jóladótið útaf þessu. Útaf þessu eða útaf því að Bóndinn er ekki með sömu röðunarnáðargáfu og ég og hefur raðað eftir sínu viti í geymsluna og ég get ekki einusinni skilið hvernig dótið komst í hauginn sem það er í núna.

Maður heldur kannski að íbúðin fyrir innan þessa hurð sé í stíl við hurðina, það veit ég reyndar ekkert um, ég hef aldrei komið þangað inn. En stigagangurinn og hurðarnar á öllum hæðunum nema minni gefa ekki beint annað til kynna en að fyrir innan búi einmitt hánískur dani eða 23 litlar tælenskar konur með eitt barn hver. Það eru tvær íbúðir fyrir neðan hverja íbúð sem er efst. Mín íbúð er tæpir 100 fermetrar sem þýðir að undir mér hljóta að vera tvær sirka 45 fermetra. Einmitt.. danir eða hellingur af tælendingum.  Ég fór í heimsókn um daginn til vinar míns og hann býr í dvergaíbúð. Það eru bara 4 hurðar þarna fyrir utan útidyrahurðina. Maður er í armlengd frá öllum hurðunum 4 um leið og maður hefur stigið inn um útidyrnar.

Fyrst er herbergi sem hann kallaði stofu en ég gat ekki séð því hann leigir það út. Þá kemur herbergið hans og svo eldhúsið en það var einmitt svo þröngt og lítið að ég gat ekki einusinni baðað út öllum öngum þar. Síðast er að nefna hið aldanska klósett, en ég fór þar inn til að létta á þvagblöðrunni. Ég settist (því ég er dama) á dolluna og í þeim hreifingum, s.s að setjast niður, rak ég hausinn í klósettrúlluna, en hún var staðsett á klósetthurðinni. Á klósett hurðinni sem ég náði til án þess að teygja mig meðan ég sat á tojjaranum. Vaskurinn var svo lítill að ég gat bara þvegið eina höndina í einu. OG athugði góðir hálsar!! þetta var líka sturtan.

Mín hurð er mun flottari.

Hér snjóar villt og galið. Hefur kyngt niður í allan dag. Mér er svosem sama þó það snjói meðan það er ekki rok. Og það er voða fallegt með öllum snjónum. Maður getur valið hvort maður ætlar að vera fúll í veðrið eður ei. Ég er búin að vera fúl útí veðrið alveg síðan í júlí því mér finnst eins og það hefði verið meira töff að hafa fleiri sólarstrandardaga þar sem hitinn gerði það að verkum að ég gat bara verið í bikiníi og synt í sjónum.

En héðan í frá er ég bara sátt við að hafa snjó því ég las í dag orð sem breyttu því hvað mér finnst um þetta veður. Það fjallaði um að snjórinn væri kominn og með honum kæmi friður og stilla. Einnig að snjórinn hefði heilunarmátt fyrir móður jörð. En fallegt. Risastór, verndandi, hvít ábreiða sem hjálpar því  sem undir henni er og færir frið og kyrrð í leiðinni.

Svo er búið að kveikja á jólaljósunum í bænum. Þessi mynd er tekin á Kaupmángaragötu við Norðurport núna áðan, fallegt ekki satt?

Og þessi er tekin fyrir nokkrum dögum síðan, líka á Kaupmángaragötu en neðan frá. Ekki næstum eins rómantískt og hin myndin.