Fyrst ber mér að nefna að allir garðar, já eða frekar allar dollur sem við ræktum í hafa fengið öll fræ og plöntur sem eiga að vera í ræktun í sumar. Auðvitað er skólagarðurinn hans Diddmundar ekki nein dolla heldur venjulegur garður. Og talandi um sumar. Ég get svo svarið það. Það er svakalega, svakalega gott veður. Ég er orðin brún bara á því að sitja hér inni og vinna.

Þessi mynd er af því sem heitir Bella by have. En þar er íbúum boðið að koma og rækta í þessum kössum. Málið er að það á að rífa öll þessi hús þarna í kring alveg á næstunni og stjórnendur verkefnisins gátu greinilega bara ekki beðið og hafa stillt  kössunum upp OG kössum fyrir eplatrén sem sést glitta í þarna upp við gráa vegginn (á myndinni fyrir neðan) í þá uppröðun sem þetta mun verða þegar þessu svæði verður breytt í lítinn bæjargarð sem ígegnum verður komið fyrir göngustíg sem verður þakinn eplatrjám af ýmsum toga. JÁ! mér finnst þetta æði. Verður örugglega svakalega flott.

bellabyhave2

 

Annars höfum við verið að bardúsa hitt og þetta. Þarna eru Bjútíbína og Eiginmaðurinn að setja saman annað gróðurhús á svalirnar…mér líður kannsi smá kjánalega að kalla þetta gróður-hús, þetta er meira kannski svona gróður-kofi eða gróður-tjald. En það þarf að setja það saman engu að síður. Hitt, sem ég fékk í hvort það var fyrra eða hitteðfyrra eyðilagðist í vetur. Gott þetta er ekki dýrt.

Bína tók ekki annað í mál en að það yrði hún sem myndi bora skrúfurnar fastar. Faðir hennar beygði sig að sjálfsögðu undir það.

setja-upp-grodurhus

Svo, þegar það var búið að frekjast svolítið í samsetningunni á gróður-tjaldinu taldi sú stutta að það væri best að hún myndi kíkja í bók. Hún er alveg eins og flest önnur börn, hún sest ofaní kassa og körfur og er helst ekki í fötum. Þannig virka þetta bara þegar maður er bara 2ja en næstum 3ja ára.

kemur-ser-vel-fyrir

Vér fengum svo heimsókn frá Malmö hér um daginn. Við tókum strikið við píurnar niður í bæ og röltum þar áleiðis að Rósenborgar garðinum. Við tókum börnin með eins og góðum konum sæmir. Karlkynið fór í hjólaferð um borg og bý á meðan. Það er líka eins og góðum körlum sæmir býst ég við. En svo hittumst við þarna niðurfrá og átum kaffi.

ferd-i-rosenborgarhave

Ég er alltaf að reyna fanga augnablikin á filmu og ætlaði að reyna að taka mynd af krökkunum þarna við tréð fyrir aftan þennan Eiginmann sem ég á. Ég bað hann vinsamlega um að beygja sig niður svo ég gæti tekið myndina. Þúst.. hva, hélt hann að ég myndi kannski ekki sjá hann í mynd ef hann myndi setja hendurnar fyrir augun? Ætlaði hann bara aaaaðeins að kíkja og vona að ég myndi ekki smella af akkúrat á meðan? Var hann máske viss um að hann gæti alveg sleppt því að beygja sig niður, ég myndi hvort sem er ekki taka eftir því, því ég er svo sjónskert og eftirtektarsljó?

hver-er-thessi-madur-eiginlega

Ef ég á að segja alveg eins og er þá fauk kannski aðeins í mig. Ég meina.. andartakið er bara eitt andartak og gott ef ekki andartakið er aðeins styttra þegar taka á mynd af því. Svo ég bað hann (ó)vinsamlega um að beygja sig (fjandakornið) niður (það ætti að vera lesendum lögnu ljóst að það stóð ekki til að ég myndi fara að standa upp til að taka myndina).

i-alvoru-hver-erann

Honum fannst það bara vera tilefni til þess að byrja að æfa fimleika. Enda hvar annarsstaðar eða á hvaða öðrum tíma á ævin eins einstaklings er betra að byrja æfa fimleika en einmitt þarna; í Rósenborgargarðinum klukkan 15 á laugardegi þegar maður er svo nálægt fertugu að það er alveg heitt þar OG þegar fólk er með gesti.

Ekki veit ég það, en það var handahlaupskeppni rétt á eftir, hann vann.