Mér varð títthugsað (ofthugsað?) til þess þegar ég var ólétt núna síðast hvort það væri ekki réttlætanlegt að frá svona 4. mánuði meðgöngu og þar til barn hefur lært að ganga mætti kona fá svona fatlamerki í bílinn sinn og fá þ.a.l leyfi til þess að leggja í blá bílastæði við búðir og annarsstaðar þar sem á annaðborð má leggja bílum.

Rísi nú upp allar rauðsokkur, feministar og konur sem fóru í Urdhva Dhanurasana (brú) á mánuði 9 án þess að hreinlega brotna eða rifna að innanverðu eða utanverðu eða bæði. Rísið upp og segið mér að það að ganga með barn sé ekki veikindi, að karlar ættu með réttu að ganga með börnin og að þið ætlið að taka ashtangaseríu 2 daginn eftir fæðingu.

Þetta er eiginlega ógeðslegt.

Þetta er eiginlega ógeðslegt.

Fyrst! Ég veit að ólétta er ekki veikindi. EN! Á þessum tíma verður kona óneitanlega fyrir líkamlegri og sveimér þá.. andlegri skerðingu af einhverju tagi. Hún verður einstaklingur með fötlun í þeim skilningi að fötlun feli í sér hreyfiskerðingu eða andlegt erfiði.

T.d þá átti ég erfitt með að klæða mig í skó frá viku 12. Fyrir þá sem vita þá er reiknað með að meðganga sé heilar 40 vikur! Endaði í plastkenndum inniskóm sem ég keypti á 1500 í Nettó. Algjör viðbjóður og ekki til að fegra úttúttnaða fæturna. Nú hef ég í fortíðinni haft ofnæmi fyrir að konur séu stöðugt að væla yfir verkjum í grind. Fékk ég aldeilis að kenna á því að halda því fram að þessir verkir væru uppspuni og eymingjaskapur. Þetta er alveg dæmalaust óþægilegt.

Ásamt því að ganga illa að klæða mig í skó, þá gekk mér illa að standa upp úr stól og gekk illa að ganga. Betra að hjóla en kom þó að því að vömbin varð of stór til að ég gæti almennilega sest uppá hnakkinn.

Þá fékk ég bjúg frá toppi til táar. Fékk svo feita fingur að ég þurfti að taka giftingahringinn af, mér til mikillar mæðu. Eftir því sem ég stækkaði þá gat ég minna hreyft mig í bólinu, ég meina bara til að snúa mér af hægri yfir á vinstri. Hefði eiginlega alveg getað notað aðstoðarmanneskju sem hefði snúið mér á klukkutímafresti eða svo, þá hefði ég kannski sofið í heila nótt eitthvað.. but NO! ÉG hefði þurft að fara svona 700 sinnum að pissa.

Það var snúið að vaska upp þar sem ég náði ekki að krananum nema að skáskjóta mér  og vaska upp á hlið. Ég er búin að finna upp hin ýmsu ráð til að þurfa ekki að beygja mig niður. T.d að nota tærnar til að ná í eitthvað sem dottið hafði á gólfið.

Að hugmynd minni um að fá fatlamerki í bílinn. Það er auðvitað alveg drep að þurfa að labba í meðgönguástandi. Við hvert skref er kona hrædd um að pissa á sig, hún jú með allt að 4kg oná þvagblöðrunni. Afhverju grindarbotnsvöðvinn verður linur á þessum tíma er mér óskiljanlegt, finnst eins og hann hefði frekar átt að vera orðinn frekar æfður og stinnur eftir að halda öllum þessum þunga frá því að detta í gólfið hreinlega.

Þessvegna ættu óléttar að fá að leggja í blá stæði, svo þær geti betur athafnað sig inn og útúr bíl og þurft að labba sem minnst að búðinni. Húðin gæti sprungið á hverri mínútu útaf öllum bjúgnum sem safnast fyrir meðan hún gengur nokkur skref.

Og afhverju ætti ekki að rífa af mér skiltið fyrr en barnið er farið að ganga? Jú, það er útaf því að eftir að barnið er fætt er það endalaus höfuðverkur að koma því OG öllu sem keypt var inní bílinn aftur. Mun þægilegra þegar barnið getur gert þetta bara sjálft.