Ég kann ekki einusinni að spara. Að mér vitandi hef ég aldrei sparað fyrir neinu. Aldrei. Ég hef aldrei lagt til hliðar og á engan varasjóð, neyðarsjóð og bara engan sjóð. Allir vita að ég hef verið með háleitar hugmyndir um að ætla að spara fyrir hinu og þessu en það hefur bara ekki átt sér stað.

Rólegan mysing, þú þarft ekki að sitja og lesa og vera með dómhörku og hugsa með þér að ég hljóti nú að vera einhver fáráðlingur sem hvorki kann neitt eða getur, hljóti að vera alveg sama um börnin mín og almennt hvernig mér reiðir af í lífinu, ég sé lúser og eigi hér eftir ekkert gott skilið, ekki einusinni eigin heilsu, ekki einusinni að draga andann hér á þessari jörð án samviskubits… nei..já, það var ekki þú sem hugsar svona til mín heldur ég sjálf.

Ég er að hugsa um að breyta orðatiltækinu “hver er sinnar gæfu smiður” í “hver er sinn versti dómari”.

Ég hef verið að spekúlera hvort ég eigi ekki að taka uppá því að prufa að spara fyrir einhverju. Bara einhverju litlu, þú veist, ég get ekki byrjað að spara í fyrsta skipti fyrir einhverju sem tekur 16 ár að spara fyrir. Nei ég yrði að byrja á að spara bara 500 kall eða eitthvað í þá áttina. Eitthvað sem tæki mjög stuttan tíma. Ég hef nefnilega svo stutt athyglissvið hvað varðar þessa hluti.

En þá er spurning, ef ég ætla að spara fyrir einhverju sem er bara handa mér, af hvaða pening spara ég? Ég meina, við erum með sameiginlegan fjárhag og höfum alltaf verið. Hvernig get ég skotið undan smá fé sem bara ég má nota?

Kannski er klukkan of margt en mér dettur í alvöru ekki nein aðferð í hug.