lifi-tuskan

Hönnun eða ekki hönnun. Það er misjafnt hvaða afstöðu fólk tekur til þess að ákveða í hvaða flokk t.d prjónuð lopapeysa eða hekluð tuska skuli sett, hvort um sé að ræða nytjalist, handverk eða listaverk (sjónlist).

Ætli lopapeysan sé hærra sett en tuskan? Myndi vera réttast að segja að lopapeysa sé listaverk en tuska sé kannski bara eitthvað dund? Er tíma prjónarans betur varið í að prjóna lopapeysu heldur en tusku? Ætti sá sem langar að hekla flotta tusku í eldhúsið sitt eða til gjafa, að fara í felur með það því það myndi vera talin sóun á tíma, vanvirðing við handverkið?  Ætti sá hinn sami frekar að vera að hekla eitthvað tilkomumeira eins og heimkomusett á nýjan einstakling?

Þetta voru umræður sem ég rakst á í morgun, mjög hressandi umræður. Vangavelturnar voru um hvort handgerðar tuskur væru þess virði að notað væri í þær garn og tími, hvort við værum að vanvirða handverkið / prjónlesið / heklið og hæfileika okkar með því að búa til tuskur og þvottapoka.

Það er auðvitað ekki neitt svar við þessum spurningum, heldur bara skoðanir fólks. Okkar skoðun er að sjálfsögðu sú að það sé upplagt að prjóna það sem langar og ekki síst, það sem þarf.

Hér aðhyllumst við að tusku-gerð sé jafn mikilvæg og að prjóna sokka á fjölskylduna, prjóna lopapeysur, hekla heimferðarsett, hekla sófateppi og allar húfurnar, allt hefur þetta tilgang og allt er þetta nytjalist.

Þó svo að sjón- og nytjalist séu hvorttveggja listgreinar og afrakstur þeirra er uninn á svipaðan hátt, þ.e uppúr hugmyndum og hugmyndavinnu, með fagþekkingu og tækni er grundvallar munurinn á listaverki og nytjalistaverki sá að notagildi listaverks takmarkast við mannfræðilegt, heimspekilegt og fagurfræðilegt gildi þess en nytjalistaverkið þarf auk þessa að standast harðar kröfur notenda um hve notendavænt það er, meðfærilegt, klæðilegt og hversu endingargott það er.

Ekkert eldhús er fullkomið fyrr en í því liggur tuska!
Garn, handavinnan og tíminn sem fer í að búa til tuskur er ekki yfir það hafið að nota megi tuskurnar í að þrífa heimilið, líka þó það þurfi að þrífa fitu og almenn heimilis-óhreinindi . Hverjum líður ekki betur í hreinu kotinu?  Hverjum þykir ekki rétt aðeins skemmtilegra að þrífa með flottri tusku og svona fyrir mig og mína parta þá verð ég alltaf svolítið stolt af því að hafa framleitt sjálf það sem þarf að nota á mínu heimili, já, ég veit að þetta er bara tuska, en samt!

Ég er þeirrar skoðunar að það skipti máli hvað við gerum, sama hversu lítið það er, það að nýta garn afganga í eitthvað sem hefur notagildi skiptir máli á ótal marga vegu. Ekki bara sem nýting á því sem hefur verið keypt heldur líka í þeim skilningi að það felist dyggð í því að framleiða fyrir sjálfan sig, að þurfa ekki alltaf að kaupa allt. Það eru til fullt af aðferðum til þess að vera eins sjálfbær og hægt er í nútímasamfélagi, þetta er eitt af þeim.

Það má líka taka þetta lengra og spá aðeins í umhverfisáhrifum af því hvernig sumar tuskur úr búð eru framleiddar. Eflaust fer í það töluvert rafmagn, olía eða bensín til flutnings á milli verksmiðju og sölustaðar svo eitthvað sé nefnt. Mig grunar að það sé oft ódýrt og ófrjálst vinnuafl sem vinnur við að búa þær til, auðvitað er gott að hafa tækifæri á að sniðganga stuðning við slíkt.

Lifi tuskan!