A manneskja mun vera sá sem fer snemma að sofa og snemma á fætur, eg held að Yfirpabbi sé A maður
B manneskja er sú sem fer seint að sofa og seint á fætur, ég held að Aðalamma sé B manneskja.

Þar sem ég er hnoðuð saman af þeim þá verð ég að tilkynna að ég hef fundið upp nýja týpu, annað hvort er smart að kalla hana AB eða BA. Ég telst til BA manneskju, seint að sofa og snemma á fætur. Allavegana neyðist ég til að fara snemma á fætur. Ég skal ekki segja með Búbba og Eðalömmu hvort þau eru A eða B eða AB eða BA, en Bóndinn er allavegana AB maður (eða AA maður en í allt öðru samhengi), semma að sofna (ekki sofa því hann dettur bara út…) og seint að vakna.

Hér er búið að vera ósköp rólegt. Fer kólnandi en í dag er glampandi sól og heiðskýrt, afhverju ég er inni í tölvunni er spurning. Ég held að það sé því ég er að DREPAST úr leiðindum. Já…ég hef orðið ekkert að gera, enda ekki í neinu nema fullu námi og tónlistaskóla..annað eins hefur bara ekki gerst. Ég er alltaf í fullri vinnu með fullum skóla og fullu tónlistanámi og fullum krökkum af frekju og fullu heimili af þeim. Þannig að í gær fór ég á stúfana ( ætli sé hér verið að tala um stúfa eins og þúfur eða svoleiðis eða alvörunni stúfa..litlar manneskjur..jæjaaaa) og heimsótti tvær blómabúðir. Ég hafði verið allt kvöldið áður að semja ferilskrá og velja sæmilega mynd af mér til að setja með. Gaman verður að sjá hvort það verður eitthvað úr því.

Sindri er í leikskólanum og fílar það batnandi eftir því sem tíminn líður. Ég var búin að segja hér að það gengi glimrandi vel en svo kom e-h bakslag en það er allt að gerast núna. Hann er nú voðalega yndislegur litli Svali.

IMG_7193
Svali

IMG_7133
Sunneva á leiðinni til Íslands

IMG_7132

Gummi líka á leiðinni þangað

IMG_7160

Hvammstangi. Fjaran, gott ef ekki sést í Framnes og náttúrlega fleira. Ég fékk heimþrá við að sjá þessar myndir, ekki endilega til Hvammstanga heldur í stemmninguna sem er í náttúrunni á Íslandi, ískalt og hryssingslegt en samt heima.

IMG_7155

Höfnin á Hvammstanga, myndasmiður er Bóndinn náttúrulega þar sem ég fór ekkert þangað heldur hann :) Flott mynd finnst mér.

IMG_7151

Var búið að segja ykkur söguna af þessu? Bóndinn er sko fasteignar eigandi. Hann og hr.AHG eiga fasteignafélag= þeir eiga fasteign og eru félagar. Án gríns þá keyptu þeir þetta gamla hús fyrir örugglega 2 eða 3 árum, við bjuggum allavegana á Hvammstangabraut 7 þegar þetta var keypt. Þetta er engin smá fasteign, þetta er bara the tip of the iceberg!! sem sést á myndinni, bara inngangurinn, húsið sjálft er fyrir neðan, 13 herbergja glæsivilla með 7 baðherbergjum. Ekki bara eru 13 svefnherbergi heldur líka 2 stofur á hverri hæð og hæðirnar eru 4. Á hverri hæð er eldhús og ekki af verri endanum. Það er fundarsalur á fyrstu hæðinni innaf bókasafninu sem inniheldur allar bækur Halldórs Laxness og lista yfir það hversu oft þær hafa verið lesnar. Í fundarsalnum er stórt hringborð og við það sitja þeir í Fasteignafélaginu, klóra sér í skegginu og drekka latte eða dæet kók og halda leynifundi um það hvenær eigi að halda áfram að grafa undirgöngin sem liggja eiga neðan úr húsinu, undir Hvammstanga með litlum uppgöngum hér og þar svo hægt sé að ná í nauðsynjar, uppgöng í KVH, uppgöng á Núpi svo hægt sé að bjóða Jóa með, uppgöng á Auðunarstöðum svo hægt sé að hvíla sig á ferðalaginu, uppgöng í Borgarnesi svo Jói geti farið í vinnuna og uppgöng í Reykjavík þar sem göngin enda. Göngin hafa fengið nafnið Sundagöng enda eru þau full af vatni og þeir verða að synda það sem þeir ætla, já eða fara á kanóunum.

IMG_7185

Það er svo komið pínu haust í Köben. Er ekki merkilegt að búa í stórborg og við húsfótinn er skógur sem ég er oft búin að tala um, en inni í honum heyrast ekki stórborgarhljóð. Ég verð að segja samt að haust í Reykjavík er mikið fallegra, ef ég væri frá Úganda væri haustið örugglega fallegast þar..