STANDANDI STUÐULL

Í staðinn fyrir að hekla 3 loftlykkjur í byrjun umferðar er hægt að hekla standandi stuðul. Það gildir einu hvort þú ert að hekla í hring eða fram og til baka.

3 loftlykkjur stinga oft í stúf vegna þess hve ólíkar þær eru stuðlinum í útliti.

Standandi stuðull er heklaður þannig: lengið lykkjuna á nálinni í u.þ.b þá hæð sem stuðullinn er hjá þér. Haldið við lykkjuna á nálinni og færið nálina framfyrir og utan um lykkjuna á nálinni, sækið þar bandið og færið svo nálina aftur framfyrir, þá eru tvær lykkjur á nál. Sláið bandi uppá nálina og dragið í gegnum fyrstu lykkju á nál, sláið bandi aftur uppá nálina og dragið í gegnum báðar lykkjur á nál. Standandi stuðull hefur verið heklaður.

Hér er myndband þar sem ég sýni hvernig hægt er að hekla þessa gerð af standandi stuðli. Ég fer sýni líka hvernig gott er að fara í fyrsta standandi stuðul síðustu umferðar svo kanturinn sé beinn, en það þarf að passa að fara undir bæði böndin sem liggja ofan á honum.