Óförum mínum við eldamennsku verður sennilega aldrei lokið. Ég hef búið til fleiri vondar máltíðir heldur en elstu menn muna. Þar með talið kvöldmaturinn í gær. Það er skinku og spergilkálsbaka sem um ræðir. Leit vel út á mynd, sú sem ég fann uppskriftina hjá fór aldeilis fögrum orðum um hana og svo var ostur ofaná, hugsaði með mér að það gæti nú bara varla klikkað.

En svo bregðast krosstré sem önnur trét og smjördeig, sýrður rjómi, smurostur, egg, smjörsteikt skinka og smá brokkólí er greinilega aðeins of væmið fyrir mig og minn smekk… og barnanna smekk.

bananabraud-og-playmokall

Þetta er ekki mynd af téðri kveldmáltíð. Þetta er bananabrauðið sem ég gerði. Það er hinsvegar mjög gott. Ég hef ekki viljað gera bananabrauð eftir að ég gerði eitt slíkt eftir uppskrift af annarri síðu en ég fann þessa á, og þar var mér lofað að brauðið væri dásamlegt og unaðslegt og geggjað og klikkað. Ég þóttist lesa á milli línanna að það væri jafnvel í boði fullnæging við það eitt að skvera í sig svo sem eins og einni sneið. Í því brauði var m.a.s  súkkulaði. Öll tré hafa brugðist.

En þetta brauð er nammigott. Allir að fara hingað og prufa.

sukkuladibitakaka-med-rjomaosti

Annað sem ég henti í og mæli með að allir fullorðnir geri sem vilja eiga súkkulaðibitakökurnar sínar í friði og borða þær allar sjálf er að baka þessar, þær eru með súkkulaðibitum, appelsínu og RJÓMAOSTI! Ný þrenning sem mig langar að baða mig uppúr.  Uppskriftin er frá henni Evu Laufey Kjaran. Hún er voða sæt og ég kann að meta hvernig hún skrifar um matinn. Ég hef fjasað um það áður en ég get ekki meðtekið að allar uppskriftir og allur matur sé dásamlegur og frábær og hreinn unaður. Computer says no.

hvadan-kom-thetta-drasl

Svona yfir að líta hef ég varið svakalega húsleg. Enda heimavinnandi húsmóðir. Mega leim ef ég hefði síðan ekkert verið húsleg. Tók í gær til við að raða öllu draslinu sem er alltaf að enda ofaná öllu. Þá ofan á bókaskápunum, ofaná fataskápunum (það er asnalegt bil fyrir ofan þá og uppí loft, því ekki að hafa bara skápana alla leið upp?) og ofaná öllum kommóðum. Þetta er krónískt ástand allra sem hér búa að geta ekki gengið frá hlutum á þeirra stað.

Allt orðið fínt ofaná öllu og þá varð mér litið inní þennan skáp. Næstum því töff óreiða. Kannski ekki samt.

rumskib

Í tiltektinni fann ég geimskipið mitt. Ég fékk það í afmælisgjöf síðast frá honum Fagra mínum. Hef ferðast töluvert í því og skemmt mér konunglega á meðan.

blomid-eina

Maður lyppast/lippast nú bara niður og verður auðmjúkur sem rjómaostur við svona fegurð. Hvernig tekst náttúrunni að skapa fullkomið í hvert skipti. Ég er bara amazed alla daga yfir því.

musikhojskolen

Og hversu mikil pípandi snilld er það að fá annað tækifæri í þessum tónskóla?? LUV IT! Ég veit ekki afhverju en hjarta mitt slær bara öðruvísi þegar ég get spilað. Kannski hljómar það eins og einhver klessa en ég er viss um að það er fólk þarna úti sem skilur fullkomlega hvað ég er að meina.

saknadi-thessarar-gotu

Það verður kannski erfiðara að skilja gleði mína við þessa sýn, en hún blasir við þegar ég svíf á bleika skýinu mínu út úr tónskólanum. Þarna fyrir miðju er einmitt Gamle Kongevej, en það er ein af uppáhalds götunum mínum hér í borg.

gata-prjons-peysa-i-vinnslu

Held alltaf að ég komi engu í verk, en þegar ég lít svona yfir sé ég að það er slatti. Ég er að prjóna mér peysu úr garni sem ég fann á tilboði á 15 kr danskar. Spennt að sjá útkomuna og spennt að fá nýja peysu. Sverða ég hef ekki fengið nýja flík síðan í Nam.

hvad-skyldi-thetta-nu-vera

Og annað! Líka á sjálfa mig. Er að þróa þetta as we speak, er einskonar bolur, og er að hekla úr garni sem mun vera til sölu hjá mér í garnbúðinni innan skamms.  Ég verð að segja að garnið er æði. Silkiblanda og úber mjúkt.MMM. Ég vil helst opna búðina 16.sept. Vona að það geti gengið eftir.

Allt í allt hef ég trú á því að framtíðin sé björt, líka þó ég eigi ekki bókina um það hvernig á að ala upp ungling og að það er gjörsamlega að taka mig á taugum að standa í því þó við eigum bara í einhverjum mini vandamálum með það akkúrat núna.

Hef heldur ekki alþjóðlega, né almenna, né sértæka, lausn á vanda barnanna sem fengu of mikið. Ætli ástæðan sé ekki að tímarnir breyttust of hratt, það er of mikið í boði og við foreldeldrar oft á tíðum hneppt í of mikla vinnu til að geta pungað út fyrir því sem ungarnir “þurfa”. Allt hefur farið offorsi. Ýkt kannski. En samt. Ekki svo ýkt. Ég held allavegana með þeim sem vilja minnka vinnutíma. Sjálf er ég að elska að vera ekki í annarri vinnu en á mínu heimili og ég veit að ég mun elska að vinna í búðinni minni, sem er á netinu og ég get séð um heiman frá. Verst er að þegar maður er ekki að vinna “þarna úti” þá eru fjárlögin eins og hengingaról.

Þurfti ekki einhver lopapeysu? Ég tek við pöntunum á kristin@skritin.is.