Allt í rétta átt í heilsunni og til að fagna því (eða til þess að staðfesta það) þá brá ég mér út af sófanum, út fyrir húsið og alla leið í metró niðurá Amagerbrogade. Beitan var nýju gleraugun mín.

Ég hef sagt það hér áður held ég örugglega, en það var orðið þannig í vetur einhverntíma að ég var alltaf með einhvern fáránlegan krampa í vöðvunum í kringum hægra augað. Eða ekki krampa beint, heldur bara þegar ég hætti að vinna t.d og hætti að píra augun (tók bara ekki eftir að ég væri að því) þá hélt andlitið á mér samt áfram að vera með kreppta vöðva. Kunni ekki að slaka á.

Úr varð að ég heimsótti augnlækni sem tjáði mér að þetta væri ekkert skrítið þar sem ég væri komin með 3 í plús á hægra auganu frá 1.75 þar megin og aðeins versnað vinstramegin.

Nú svo leið og beið þar til mér þótti veskið nógu bústið að ég strunsaði niður til Lúí Nílsen, þar sem ég kaupi gleraugu og fer í tékk og valdi mér flottar brillur til að setja nýtt gler í. Þetta var daginn áður en ég datt í veikindin.

Númm, í dag var þá komið að því að sækja nýju augun, sem ég og gerði. Ég setti þau upp og ég get svo svarið það krakkar að ég fékk nýjan síma! Já. Nýjan síma segi ég og skrifa.

Kemur í ljós að síminn minn er bara frekar stór og með mjööög tæran skjá, líka þó hann sé brotinn. Hann sýnir ekki óskýrar ljósmyndir og það er ekki erfitt að lesa af honum.

Það er ekki ónýtt að ná í nýju gleraugun og upplifa í leiðinni að hafa fengið nýjan síma.

Húrra fyrir ÖLLU!