Ég hugsa svo oft til þess hvað allt var æðislegt á Englandsvej, þar sem við bjuggum áður en við fluttum til Íslands 2011. Hafiði upplifað þetta? Eitthvað tímabil sem þið hugsið alltaf til baka til eins og allt hafi verið rétt og það verði aldrei í framtíðinni betra né eins.

Við vorum þar í rétt tæp 3 ár. Íbúðin var fallegasta íbúð sem ég hef búið í og þó svo að það hafi verið 97 tröppur uppí þessa blessuðu íbúð og að hún var bara með 2 svefnherbergjum og við 5 þá er ég alltaf að hugsa til þess þegar við vorum þar, með einhverskonar fortíðarljóma tilfinningu.

Ég er þá búin að vera að hugsa um þetta síðan við mættum hér aftur 2014, hvað það var frábært að vera þar. Þegar ég hjóla framhjá fæ ég fortíðarþrá.

Þegar ég fer yfir þetta síðan með raunveruleikagleraugunum þá veit ég alveg að við höfðum það ekki betra þarna, per sei. Við höfðum það ekki betra sambandslega, skildum meira að segja meðan við bjuggum í þessari íbúð. Ég upplifði eitt af mínum verstu tímabilum tilfinningalega eftir skilnaðinn. Það var svakalega erfitt. Við höfðum það heldur ekki betra fjárhagslega. Við höfðum það heldur ekki betra inní okkur.

Og hvað erða þá sem gerði það að verkum að alltaf þegar ég hugsa til baka til þessa tímabils að ég held að allt hafi verið betra þá?

Ég vissi það ekki fyrr en ég áttaði mig á því að það var síðasti punkturinn í lífi mínu sem mér fannst allt vera mögulegt. Ég var tilbúin í hvað sem er, kútalaus í djúpulauginni.

Núna er eins og þegar maður fer á skauta aftur, mörgum, mörgum árum eftir að maður var á skautum sem barn og áttar sig á því að það er mega hættulegt að vera á skautum, það er vont að detta og það er enganveginn hægt að hreyfa sig frjálslega. Og ísinn er allur í litlum rákum sem hægt væri að detta um.

Geggjað niðurdrepandi póstur? Svona er þetta bara. Ég er ekki hér til að blogga um hvað allt er frábært og æðislegt svo ég fái fleiri lesendur og verðið boðið að setja auglýsingar á bloggið mitt og beðin um að mata æsta aðdáendur mína á einhverju sem aðrir en ég græða pening á.

Lífið er dans á rósum krakkar mínir (já, ég held að þetta orðatiltæki hafi verið sett öfugt fram á sínum tíma, lífið ER eins og dans á rósum því rósir hafa þyrna, fattarðu) og það vita allir að allt er ekki frábært og æðislegt alla daga þó svo að einhver setji það þannig fram í rituðu máli.

Já maður…kona.