Eftir afmælisdaginn góða, þar sem ég leyfði mér að slaka á, vera óstíf, skemmtileg og þýð í samskiptum við hina og leyfði mér í þennan 1/365 af árinu að hugsa ekki um áhyggjur alheimsins, vaknaði ég svo leiðinleg að ég bara var að hugsa um að rífa upp hurðina, rjúka út og skilja sjálfa mig eftir. Já og hananú.

Fúla gellan! Ég fann fyrir öllum áhyggjunum sem ég hefði venjulega haft á sunnudeginum plús allar mánudagsáhyggjurnar, bara eins og vegleg þynnka takk fyrir bless.

Ég veit ekki almennilega hvað það er sem gerir afmælisdaginn að svona góðum degi. Kannski fagna ég því leynt og ljóst að ég yfir höfuð er til og að ég bý í raun við velmegun bæði hvað varðar fólkið sem þykir vænt um mig og bara í lífinu almennt.

Kannski verð ég meir á afmælisdögum og finnst ótrúlegt að það sé einhver sem nennir að dekra við mig, mig sem á ekkert gott skilið og enginn ætti að vera að pæla nokkurn skapaðan hlut í (sagði hausinn á mér, ekki ég sjálf).

Kannski var það hálsbólgan sem ég er með sem gerði að ég átti auðveldara að leyfa mér að hjóla ekki á 110%, liggja í rólunni á róló og horfa uppí skýin og skoða þau, taka myndir af hlutum í rólegheitum og sitja í sófanum mínum að hekla bekk-löberinn minn (ok.. veit að það er ekki í alvörunni til neitt sem heitir bekk-löber.. útskýri síðar).

Aðeins að slá af fartinu virðist vera málið. Ég fékk allavegana yfirsýn á þessum stutta degi og fékk nokkrar góðar hugmyndir.

Mögulega fékk ég líka byr undir báða vængi í gær þegar ég bókstaflega fann fyrir öllum sem hugsuðu til mín. Þið vitið að Facebook er ekki verkfæri djöfulsins, númer 1 því hann er ekki til, en númer 2 vegna þess að ég fékk fleiri, fleiri kveðjur þar í gær og það tekur kannski alveg 30 sek til mínútu að skrifa eina kveðju (eða eitthvað) og þegar það safnast saman svona hamingju óskastraumarnir og berast yfir til mín þá verð ég bara glaðari. Það er bara þannig.

Mig langar að segja að fyrst ég get haft það fyrir vana að tannbursta mig bæði kvölds og morgna þá hlýt ég að geta ákveðið að á sunnudögum séum við ekki að gera neitt. Það þýðir auðvitað að hina 6 daga vikunnar yrðum við að vera meira á þönum en við erum (heimilisrekstur þú skilur) nú þegar, en ég held að það sé þess virði að hafa einn heilan dag í viku þar sem við gerum annað hvort ekkert eða þá eitthvað sem gefur, ekki eitthvað sem tekur.

Annars tók ég eftir einhverri svakalegri bólu rétt undir kjálkanum á mér hægra megin. Stóð við spegilinn og geiflaði mig svo ég sæi óþverran. Gat ekki stillt mig um að kreista aðeins. Mér blæddi með það sama (enginn gröftur, það hefði verið ógeðslegt og ekki við hæfi að segja frá því) en þegar ég hafði þurrkað blóðið tók ég eftir að það stóð hár útúr sárinu. Ég togaði í það og afrúllaði ca 2 cm löngu hári sem hafði verið að dúlla sér við að vaxa undir skinninu mér í langan langan tíma. Hárið var alvöru skegghár.

Lengi lifi inngróin hár og aðgerðalausir sunnudagar.